Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2024 Matvælaráðuneytið

Heimilt að endurnýta eyrnamerki í sauðfé til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur upplýst eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um að það hyggist fresta gildistöku breytingareglugerðar um merkingu búfjár. Ljóst þykir að bændur þurfi meiri tíma til aðlögunar og verður því heimilt að nota endurnýtanleg merki í sláturtíð árið 2024 og til 1. nóvember árið 2025. Frekari framlenging mun ekki koma til skoðunar að þeim tíma liðnum.

Sú heimild sem Matvælastofnun hafði á sínum tíma til að leyfa endurnýtingu umræddra merkja var felld brott vegna athugasemda sem ESA gerði við úttekt á opinberu eftirliti með kjöti, mjólk og afleiddum innlendum afurðum í október árið 2019. Í athugasemdum ESA kom fram að heimild til endurnýtingar merkja væri í andstöðu við EES-reglur sem gilda um auðkenningu landdýra í haldi. Einnig að samkvæmt matvælalöggjöf Evrópusambandsins mætti í raun ekki endurnýta merki í sauðfé og nautgripi.

Vert er að árétta að þó skylda sé fyrir hendi samkvæmt EES-reglum til að merkja sauðfé er ekki krafa um örmerkingar á Íslandi þar sem viðmið þeirrar kröfu byggir á að í viðkomandi landi sé fjöldi sauðfjár 600.000 eða fleiri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum